Dalir og hólar – ferðateikningar

24.- júlí – 8. ágúst 2010

Dalir og hólar 2010 / ferðateikningar

Myndlistasýning í Dölum og Reykhólahreppi.

Sýningarstaðir: í Ólafsdal, í Króksfjarðarnesi,

að Nýp á Skarðsströnd og að Röðli á Skarðsströnd.

Þáttakendur:
Anna Guðjónsdóttir,
Anne Thorseth,
Dagbjört Drífa Thorlacius,
Helgi Þ. Friðjónsson,
Kristinn G. Harðarson,
Kristín Rúnarsdóttir,
Þorri Hringsson.

Sýningin kallast á við sýningarnar Dalir og Hólar 2008 og 2009 að því leiyti að hún hefur að markmiði að taka þátt í mannlífi svæðisins, efna til samstarfs við heimamenn og leiða
sýningargesti í ferðalag um þetta fallega svæði. En hún kallast jafnframt á við ákveðna alþjóðlega hefð innan myndlistarinnar. Það sem listamennirnir sýna er nokkuð sem kalla mætti ferðateikningar; teikningar sem skrásetja eða segja frá ferðalagi á einhvern hátt – hugleiðing, hugmynd eða raunverulegri ferð – fjalla um ferðalagið og / eða staðina sem farið er til. Grundvöllur sýningarinnar er þannig í anda ákveðinnar hefðar sem listamenn eins og Collingwood og Ásgrímur Jónsson voru hluti af svo dæmi sé tekið, en báðir gerðu þeir teikningar á ferðum sínum um landið. Hjá sumum listamönnum sem unnu með þessa hefð var þetta undirbúningur fyrir stærri verk, aðrir voru e.t.v einungis að festa útsýnið í minni sér og hjá enn öðrum var þetta fag og fjölmiðlun. Gerðar voru ætingar eftir teikningum þeirra og þær prentaðar í ferðabókum eða dagblöðum sem fjölluðu um viðkomandi lönd eða svæði. Í myndlist og bókmenntum á 20. og 21. öld hefur ferðalagið hins vegar oft yfirfærða merkingu; þá er ferðalagið ekki endilega áþreifanlegt en hefur vísun í huglægt ástand eða tilfærslu. Við Breiðafjörð og í Dölum hafa margir listamenn sögunnar og samtíðarinnar slitið bernskuskóm eða unnið lífsverk sitt. Svæðið býr yfir fjölskrúðugri náttúru, fjölbreyttu dýralífi, menningu og sögu, sem enn er ótæmandi uppspretta nýrra verka og nýsköpunar í listum.

Sýningarstjórn: Kristinn G. Harðarson, Þóra Sigurðardóttir og Helgi Þorgils Friðjónsson.

Sýningin er styrkt af Menningarráði Vesturlands, Menningarráði Vestfjarða, Ólafsdalsfélaginu, Kulturkontakt Nord og Statens Kunstfond (Dk).
———————————–

Anna Guðjónsdóttir f. 1958

Anna nálgast verkefnið Dalir og hólar að nokkru leyti út frá textum sem fjalla um svæðið við Breiðafjörð og Gilsfjörð, einkum þó bréfum Collingwood, sem var útlendingur á íslenskri grund, en hennar veruleiki er íslenskur á erlendri grund. Anna Guðjónsdóttir fæddist í Reykjavík en býr og vinnur í Hamborg, Þýskalandi. Hún stundaði nám í Hochschule fur Bildende Kunste þar sem aðaleiðbeinandi hennar var Franz Erhard Walter. Anna er stofnandi Gallerie fur Landschaftskunst í Hamborg. Anna hefur reglulega tekið þátt í samsýningum og sýnt verk sín á einkasýningum í Evrópu og á Íslandi.

Eftirfarandi úrdráttur er úr bréfi Collingwood til 11 ára dóttur sinnar, Dóru. Bréfkornið hefur m.a. orðið kveikja að verkum Önnu Guðjónsdóttur, fyrir sýninguna Dalir og hólar 2010.

Reykjavík 27. júlí 1897

„Elsku Dóra mín.
Nú ætla ég að þakka þér fyrir tvö bréf og segja langa sögu. En þar sem penninn minn er lélegur og blekið þýskt verður þú að lesa bréfið eftir bestu getu, eða láta lesa það fyrir þig. Og þykir þér gaman að því, er það meira en ég á von á.

Söguefnið er í rauninni ekki annað en ferðalög á þreyttum hestum, málun skyndimynda, neysla á litlum og bragðvondum mat og svefn í þröngum og loftlausum hreysum. En svo eru fjöllin, klettóttar strendurnar og fornar söguslóðir, sem rétt nægja til þess að vert sé að leggja allt þetta á sig.

Flestir þessara staða eru ekki miklir í sjálfum sér, þótt landslagið sé villt og ógnþrungið fjallendi, einhvers staðar mitt á milli Vatnalanda að vetrarlagi og hálendis Sviss þar sem það er kaldranalegast. En sérhver staður var eitt sinn heimkynni einhvers merkilegs manns, orrustuvöllur eða einmitt sá vettvangur þar sem mikill atburður gerðist. Þá gleymist stundarkorn að maður er rennblautur, kaldur, svangur og illa haldinn. Hugurinn leitar til fólksins sem átti heima hér endur fyrir löngu og hinna glæsilegu ritverka, sem um það fjalla og segja sannar sögur af gerðum þess.

Þú finnur Gilsfjörð á kortinu og mjóa eiðið sem skilur hann frá Bitrufirði. Þetta eiði tengir hinn mikla norðvesturkjálka við sjálft meginland Íslands og sýnist ekki nema hársbreidd á kortinu. Þó er þetta í raun og veru miki fjalllendi, breitt oog illt yfirferðar. Mér var sagt að vegurinn væri auðfarinn enda aðalpóstleiðin. Elskan mín góða! Besti hlutinn er verri en stígurinn frá Low-Water-grjótnáminu upp Old Man-fjall. Í úrhellisrigningu komum við að bæ, sem heitir Kleifar. Þar staulaðist út afgamall maður með blá gleraugu. Okkur fannst hálfgerð skömm að því að láta hann standa þarna úti við dyrnar Að lokum bauð hann okkur inn í bæinn, gaf okkur kaffi og kökur svo sem venja er til og bauðst síðan til að fylgja okkur yfir skarðið. Ég hélt að hann ætlaði að senda dreng með okkur. En hann var nú ekki alveg á því. Sá gamli skjögraði út, fór á bak hesti sínum og skrafaði við okkur alla leiðina upp. Við héldum í krákustígum yfir klettótt landið og ógurleg björgin, sem loka dalnum á alla vegu. Þarna beljar vatnið niður og myndar tröllaukinn foss. Þaðan bugðast leiðin upp og ofar þar til fossinn er eins langt fyrir neðan og hann var áður fyrir ofan. Og enn er haldið áfram inn í þokubakkana og yfir fannbreiðurnar. Síðan er ekkert að fara eftri nema troðningar milli klettanna, um mýrar og fen og yfir árnar á leiðinni. Troðningarnir liggja að árbakka, þar sem við urðum að knýja hestana áfram milli grjóthnullunganna. Loks komum við að gjótvörðu efst uppi á háfjöllum. Þar fór gamli maðurinn af baki og dró fram tóbaksbauk einhvers staðar úr rennblautum og illa leiknum fötunum sínum. Að svo búnu sagði hann að nú lægi allt beint við og niður í móti. Við fengum honum tvær krónur, en hann vildi ekki nema eina, sem var í rauninni rétt verð fyrir slíka leiðsögn. Eftir nokkrar umtölur tók hann þó við aukakrónunni, sem gjöf eða einhvers konar umbun. Síðan brá hann sér á hestbak og hvarf sjónum inn í þokuna, en við áttum langa og stranga reið fyrir höndum með rok og rigningu beint í fangið.

Þetta fjallaskarð er líkara fjallalýsingunni í „The Glittering Plain“, eftir William Morris, en nokkurri annarri frásögn, sem ég þekki. Fjöllin og þokusúldin eru hreinasta martröð. Hrikalegar jarðmyndanirnar birtast hver af annarri, sumar líkar, en aðrar síbreytilegar. Síðan kemur hver áin eftir aðra, snjór á snjó ofan, kelda eftir keldu og klettur af kletti þar til maður verður alveg ringlaður og hálfhræddur. Nú skil ég hvers vegna fólk tókst að óttast fjöllin þegar hvorki voru til vegir yfir þau né gistihús að leita til. Það er mikill munur á hálendi Íslands og greiðfærum Alpafjölunum.“

Úr bókinni Feguð Íslands og fornir sögustaðir

Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf. 1988

Íslensk þýðing Haraldur Hannesson

Anna Guðjónsdóttir: Hvorki fugl né fiskur. Nálgun íslendings og útlendings.

„Æi greyið, hún er nú hvorki fugl né fiskur“. Þetta fékk maður að heyra, ekki lengur talin vera barn en heldur ekki talin fullgildur kvenmaður, hvorki með ávöl brjóst né breiðar mjaðmir.

Þegar maður hefur búið í útlöndum í rúm tuttugu ár, koma þessi orð stundum upp í hugann og tilfinningin, sem þeim fylgdi. Þó maður sé farinn að starfa vel og geti farið eftir reglum útlandsins án örðugleika, er maður og verður alltaf sami útlendingurinn. Athyglivert er, að því lengur sem maður dvelur á útlendri grund, því öflugri og skýrari verður tilfinningin fyrir hinum íslenska uppruna.
Að koma „heim“, kaupa fransbrauð í bakaríinu og finnast maður þekkja manneskjuna sem afgreiddi mann. Maður finnur til samkenndar með henni. Mér finnst ég aldrei þekkja neina manneskju, sem afgreiðir mig í bakaríum Hamborgar. Þýskan er fjölbreytt og fallegt mál. Tilfinningin fyrir þýsku orðunum er gjörólík þeirri tilfinningu, sem ég hef fyrir þeim íslensku, þar sem hvert orð vekur kennd, sem snertir á dýpri strengi sálarinnar.

Ég nálgast verkefnið „Dalir og Hólar 2010“ eilítið eins og hann gamli Collingwood. Hann var útlendingur á íslenskri grund, ég er íslendingur á útlendir grund. Ég hef það fram yfir hann, að vera íslensk, og tel mig skilja það mál sem moldin á Íslandi talar.

Júnímánuði 2010,

Anna Guðjónsdóttir

Sýningar m.a.:

2003 Outlook, varanleg innsetning ; Springhornhof, Þýskalandi

2002 Unsicheres Terrain; Stadtische Galerie Nordhorn, Þýskaland

2004 Jager, Sammler, Maler; Harburger Bahnhof, Hamborg, Þýskaland

———————————–

 Anne Thorseth  f. 1952

Verk Anne á sýningunni Dalir og Hólar 2010 eru unnin út frá skissum og ljósmyndum sem Anne hefur tekið á gönguferðum sínum við Breiðafjörð. Anne hefur verið tíður gestur á Íslandi síðan 1994 og hefur nýtt áhrif frá landslagi og víðáttu í verkum sínum. Ferðalagið sem slíkt og gönguferðir á norðurslóðum – þ.á. m. á fjalllendinu fyrir ofan Skarðsströnd – hafa orðið Anne viðfangsefni og drjúgur efniviður.

Anne Thorseth býr og vinnur í Kaupmannahöfn. Hún hefur verið virk í
myndlistalífi Kaupmannahafnar síðan hún lauk námi við Listaháskólann í
Kaupmannahöfn og hefur sýnt í reglulega í Danmörku víðar, auk kennslu. Anne vinnur með málverk, teikningu, ljósmyndir og rými.

———————————–

Dagbjört Drífa Thorlacius  f. 1980

Vegna sýningarinnar Dalir og hólar 2010 hefur Dagbjört lagt í ferðalag um sveitina-
á kunnugar slóðir- og heimsótt unga bændur. Ferðalagið á sér stað í miðjum sauðburði þar sem eins og gefur að skilja eru miklar annir á þessum árstíma. Útkoman verður efni sýningarinnar.
“Megináhrifavaldur í verkum mínum er umhverfið og í því þykir mér manneskjan áhugaverðust, þ.e. hvernig tengjast aðstæður samfélagsins og manneskjunnar og hvaða áhrif þær hafa á líf hennar. Geta athafnir manneskjunnar sagt eitthvað til um hennar eigin raunveruleika? Hvernig upplifir hún sig í þeim hlutverkum sem hún óvart eða viljandi tekur að sér? Manneskjan skapar sjálfa sig út frá eigin forsendum og tekst á við heiminn með því að meta þau gildi sem ríkjandi eru í samfélaginu.

Verkin fjalla um manneskjuna í sínu nærumhverfi. Þau endurspegla vangaveltur um venjubundið, hversdagslegt líf fólks. Hversdagsleikinn býður upp á mörg viðfangsefni sem almennt þykja kannski ekki ýkja spennandi. Hversdagsleg augnablik segja manni ef til vill ekki mikið en verkin endurspegla þannig vangaveltur um engar sérstakar upplifanir og tilfinningar sem fylgja því að vera til. Ég lít á verkin sem eins konar minnismerki úr hversdagslegum stemningum og augnablikum og gef þeim ákveðið gildi með því að setja þau oftast fram með þeim miðli sem málverkið er. Verkin eru í raun samfélagslegar vangaveltur um fólk í sínu eigin umhverfi, um tengsl milli fólks.
Þau endurspegla raunverulegar og óraunverulegar hversdagslegar stemningar.”

Dagbjört Drífa útskrifaðist frá myndlistadeild Listaháskóla Íslands árið 2004 og lauk kennsluréttindanámi frá sama skóla árið 2006.

———————————–

Helgi Þorgils Friðjónsson  f. 1953

Fyrir sýninguna Dalir og Hólar 2010 hefur Helgi unnið að 3 verkefnum. Þau eru eftirfarandi:

1.       “Árlega hef ég ásamt Margréti Lísu Steingrímsdóttur, Gunnari Einarssyni og Sigríði Guðmundsdóttur, og nú seinni árin ásamt Birgi Snæbirni Birgissyni og Sigrúnu Sigvaldadóttur, farið í siglingu fyrstu helgina í Maí, með það fyrir augum að eiga góða helgi og borða vel af nýorpnum eggjum, mest gæsaeggjum, nýjum kræklingi og þorski, sölum og þara, sem við fáum beint úr náttúrunni, með aðkeyptu Whiskýi, bjór og víni. Þessi ferð er okkur öllum tilhlökkunarefni, og mikill gleðitími. Ég ákvað að hafa með mér skissubók, til að lýsa ferðinni, sem ég hef reyndar alltaf gert, en ekki jafn markvisst og nú, fyrir þessa sýningu.

2. Ég geng mikið um umhverfið í kringum Kjallaksstaði, og heyjaði túnið til nokkurra ára þegar ég var ungur. Er stundum leiðsögumaður fyrir ferðahópa. Næsti bær við Kjallaksstaði, eða Kjarlaksstaði, eins og bærinn heitir líka og er kannski þekktara nafn, er Ytra-Fell. Þar var Guðmundur Ólafsson oddviti þegar ég var í sveit á Breiðabólsstað hjá afa mínum. Guðmundur var góður vinur afa, og þeir hlógu talsvert saman í barnsminni mínu. Guðmundur lágvaxinn, og fínlegur, en afi stór og sterklegur. Ég hef verið að ganga um rústir gamla bæjarins á Ytra-Felli og skrástetja þær í vinnubækurnar.

3.   Ég hef lengi ætlað að ganga til kirkju á Skarði, en það hefur þó dregist, þar sem ekki er messað þar nema tvisvar á ári, og aldrei hitt vel á. Þetta á að vera styttsta leið yfir fjallveg. Ég ætla að fara í þennan göngutúr án þess að fara í messuna, og skrásetja hann.

Frá barnæsku hef ég haldið lauslegar dagbækur, en ekki endilega stöðugt. Ég skrifaði í sprittprentað skólablað, og myndskreytti, oftast einhverjar upplifanir, og gaf út allskonar blöð á skrifstofu pabba. Á einhverjum tímapunkti breytist þetta yfir í myndlist. Ég held að það hafi gerst þegar Jón Gunnar sá eitthvað af þessu þegar ég var á öðru ári í Myndlista – og handíðaskóla Íslands. Þá fór ég stundum að gefa þetta út í fleiri en einu eintaki, og eitthvað fór á SÚM sýningar milli l973-1980 að mig minnir. Flest ferðalög sem ég hef farið í eru skráð í myndskreyttar bækur sem væri auðvelt að laga að prentverki. “Grænland” er e.t.v. sú bók sem kemst næst því að vera eins og ég vildi hafa þær. Hún er þó stytt, og aðeins fáar myndir prentaðar vegna kostnaðar. Þó að fáir sjái beint samhengi milli þeirra mynda sem ég er þekktastur fyrir, þá eru þetta grunnhugleiðingar um tilveruna, sem fyrir mér eru mikilvægur grunnur á bak við allt mitt höfundarverk. Ég málaði í tvö ár sama landslagið á annað hundrað sinnum, og hélt dagbók, eins og venjulega með. Nú er Crimogea að reyna að finna fjármögnunarleið fyrir hana. Ég málaði einnig myndsyrpuna Skarð, sem ég sýndi með Einari Fal Ingólfssyni í Gallerí Amina árið 2006, og svo aftur í Leifsbúð, Búðardal, sama ár. Árið 2001 sýndi ég myndsyrpuna “Í fótspor Collingwood” á Listasafninu í Borgarnesi, 12 lítil málverk sem ég málaði á sömu stöðum og Collingwood vatnslitaði í Dölum á ferðalagi sínu á nítjándu öld. Höskuldsstaðasyrpuna málaði ég 2006. Hún var sýnd á Listasfni Íslands núna nýlega. Ég er að vinna að verki sem verður einskonar undir sería Höskuldsstaðaraðarinnar, þ.e.a.s. Þá var ég að klára að mála Eyðibýlið Hafurstaði, þar sem ég var nokkur sumur, og svo ætla ég að mála öll þau hús sem ég hef búið í og setja fram minningar með þeim. Ég læt þetta nægja af upptalningu minni á myndverkum sem eru hugsuð sem myndlýsingar tengdar sögu og minningum.
Í raun og veru vinn ég öll verkin mín með hugleiðingum í gegnum skissur og riss, tengdar því sem ég les, upplifi sjónrænt, andlega eða með snertingu. Ég er að vinna með innri og ytri veruleika, sem stundum gliðnar á milli, jafnvel svo að það virðist heilt fljót þar á milli, og öðru sinni rennur saman í eina línu.”

Myndlista – og handíðaskóli Íslands 1971 – 1976
The Free Academie, Den Hauge, Holland 1976 – 1977
Jan Van Eyck Academie, Maastricht, Holland 1977 – 1979

Nokkrar síðustu sýningar:

Angurværð í minni, (með Amelie von Wulffen, Birgi Snæbirni Birgissyni og Helga Hjaltalín), Listasafn Íslands, 2010.
Religious dream, (með Robert Devriendt), Duet Gallery, Varese, Ítalía 2009.
Gli anni ´80, Arengario og Serrone della Villa Reale, Monsa, Ítalía 2009.
Gallery Caesar, Omoulouc, Tzech Republik, 2009.
Human Nature – Telling the truth, Nordatlantens Brygge, Kaupmannahöfn, Danmörk 2008.
Hérna – Hangar 7, Salzburg, Austurríki 2007
Dyr á þúfu, Kunsthalle Bremenhaven, Þýskaland 2006
Espace dÁrt Contemporain Gustave Fayet, Serignan, Frakkland 2006.
Viaggio in Islanda (with Salvo), Duet Gallery, Varese, Ítalía 2006

Verk í eigu listasafna víða í Evrópu.

———————————–

Kristín Rúnarsdóttir  f. 1984.

Kristín hefur lagt ákveðna áherslu á teikningu í vinnu sinni. Meðal viðfangsefna hennar eru tengsl fagurfræði og hagnýti. Síðastliðin ár hefur hún unnið teikningar sem skírskota í hvers kyns útskýringarteikningar fyrir rými og kerfi, þ.e. hagnýtar teikningar af ýmsum gerðum sem hafa ákveðna fagurfræðilega eiginleika; einkennast af beinum línum og eru unnar með ákveðnum aðferðum auk þess að fela í sér sérhæfð táknkerfi sem tengjast viðfangsefninu hverju sinni. Teikningin er að vissu leyti notuð sem tæki til að skrásetja/kortleggja umhverfi og hugarheim. Í mörgum verkanna koma fyrir vísanir í myndheim íþrótta og leikja, minningar um íþrótta- og leikvelli. Teikningarnar eru unnar með ýmsum efnum á pappírsarkir, á plötur, í bækur og á gólf-/veggfleti.

Kristín útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2009.
Hún er virkur meðlimur í Gallerí Crymo við Laugaveg 41a, Reykjavík.
Undanfarin ár hefur hún tekið þátt í sýningum og verkefnum hér heima og á Norðurlöndunum.

———————————–

Kristinn G. Harðarson  f. 1955

Kristinn sýnir teikningar gerðar á síðustu þremur árum á ferðum sínum um um Dalasýslu og þá aðallega um Skarðsströnd og Gilsfjörð. Sumar myndanna eru gerðar beint eftir fyrirmyndunum en aðrar gerðar eftir ljósmyndum teknum á þessum ferðum. Kristinn hefur unnið ýmis konar störf gegnum tíðina svo sem við hönnun og leikmyndavinnu, vinnu á geðdeildum og við myndlistakennslu af margvíslegum toga. Hann var stofnfélagi í samtökunum Suðurgötu 7 og Nýlistasafninu og hefur allnokkuð sinnt sýningarstjórnun. Kristinn hefur fengist við hin ýmsu form og aðferðir myndlistar, allt frá vatnslitum til gjörninga.
Texta hefur hann notað í miklum mæli, sem skýrist af hinum frásagnarlega þætti verka hans.
Þau frásagnarform sem hann hefur unnið hvað mest með undanfarið eru frænkurnar dagbókin og ferðasagan.

———————————–

Þorri Hringsson  f. 1966

Undanfarin ár hefur Þorri aðallega sótt myndefni sitt í Aðaldal í Þingeyjarsýslu þar sem hann hefur vinnuaðstöðu. Verkefni sýningarinnar Dalir og Hólar 2010 eru unnin út frá umhverfi Breiðafjarðar og nágrennis og er þetta í fyrsta skipti sem hann glímir við landslag utan Þingeyjarsýslunnar.

Vinnuferli listarinnar virðist á yfirborðinu vera einfalt og marksækið, þ.e. að fyrst kviknar hugmynd og síðan, eftir mismundi leiðum, verður til lokaafurð sem sett er fram á afar ólíkan hátt, tvívíðan eða þrívíðan, hreyfanlegan eða statískan, allt eftir atvikum og þeirri túlkun sem höfundurinn kýs. Alla jafna er það sýningargripurinn sjálfur sem fær athyglina en að baki hans liggur oft langur og krókóttur vegur sem sjaldnast er opinberaður. Frá hugmynd til myndar er ferðalag, stundum stutt og stundum langt og stundum heldur ferðalagið áfram frá mynd til myndar þar sem ein mynd elur af sér aðra og þá sjaldnast í beinni línu eða rökréttu samhengi. Rétt eins og göngutúr í náttúrunni er myndlistin ferð sem á sér upphaf og endi en oftar en ekki er sá punktur langt frá þeim stað er lagt var upp frá.

Þorri stundaði nám við Myndlistaskólann í Reykjavík, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Jan Van Eyck Akademíuna 1984-1991. Hann hefur haldið yfir 20 einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum bæði heima og erlendis ásamt því að kenna málun og teikningu, gera myndasögur, skipuleggja sýningar og skrifa um vín og veitingahús.