2. – 6. júlí 2007
Sumarsmiðja í Tjarnarlundi fyrir grunnskólabörn á Vesturlandi
Markmið sumarsmiðju fyrir börn á grunnskólaaldri í Tjarnarlundi var að gefa börnum á Vesturlandi kost á samstarfi við fagmenn á sviði lista og hönnunar, þar sem fléttað er saman verklegri og fræðilegri nálgun og unnið út frá aðstæðum á svæðinu.
Innblástur Sumarsmiðjunnar var umhverfi Vesturlands; jarðfræði, náttúra og menning svæðisins. Lögð verður áhersla á nýtingu þeirra hráefna/viðfangsefna sem tiltæk eru þar. Í sumarsmiðjunni verður einnig byggt á reynslu sem fékkst sumarið 2006 þegar boðið var upp á sumarsmiðju fyrir börn í Dalasýslu og Austur Barðastrandasýslu, en sumarsmiðjan verður jafnframt að nokkru leyti samstíga sumarnámskeiðum Myndlistaskólans í Reykjavík sumarið 2007. Vinna við kennsluáætlun er unnin í samvinnu við Barna-og unglingadeild Myndlistaskólans. Sumarsmiðjan er byggð upp innan þess ramma sem reyndur hefur verið með ákaflega góðum árangri í Sumarnámskeiðum Myndlistaskólans og í samstarfsverkefnum hans og grunnskóla Reykjavíkurborgar LISTABÚÐIR Í MYNDLISTASKÓLA” (sjá matsskýrslu Rósu K. Júlíusdóttur, Háskólanum á Akureyri á árangri listbúða á vef Myndlistaskólans: HYPERLINK “http://www.myndlistaskolinn.is/index.php?id=157” http://www.myndlistaskolinn.is/index.php?id=157
Sumarsmiðja í Tjarnarlundi er unnin í samvinnu við barnadeild Myndlistaskólans í Reykjavík.
JÖRÐ, HLJÓÐ OG VINDUR.
Við munum skoða hljóðheima umhverfisins og hversdagslegra hluta, teikna og búa til hljóðfæri úr margskonar efnivið og kanna hljóð hlutana með ýmsum hætti, m.a. með hjálp vindsins. Ýmiskonar efni og hráefni úr umhverfinu verður okkur innblástur, ásamt myndum / textum um hljóð og hljóðfæri. Við munum setja saman okkar eigin hljóðgefandi hluti og velta fyrir okkur möguleikum á því að magna upp hljóm þeirra. Við munum einnig kanna leiðir til að fá vindinn í leik með okkur til að setja saman flygildi – þá nýtum við okkur hugmyndir sem munu spretta upp úr rannsóknum okkar frá fyrstu dögum smiðjunnar. Efniviður og hljóðgjafar verða meðal annars; grjót, vindur, dósir, strengir, leir, trjáviður, plast, vatn, gler o.s.frv. Verkstæðið okkar verður í – og við Tjarnarlund í Saurbæjarhreppi, Dalasýslu.