3. – 7. júlí 2006
Sumarsmiðja í Tjarnarlundi
fyrir grunnskólabörn
Samstarf Nýpur, Grunnskólans í Tjarnarlundi
og barnadeild Myndlistaskólans í Reykjavík
Kennarar: Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir, Þóra Sigurðardóttir
Aðstoðarmaður: Halla Steinólfsdóttir
Verkefnið styrktu Menningarráð Vesturlands og Sveitarstjórn Saurbæjarhrepps.
Verkefnislýsing:
Unnið var með viðfangsefni út frá byggingum manna og dýra, náttúrufræði – skuggaleik og fantasíu. Farið var í vettvangs- og rannsóknarferðir um nágrenni skólans í Tjarnarlundi, teiknað og skoðað manngert umhverfi og náttúrulegt og var teikningu beitt sem aðferð til að skoða fyrirbærin. Safnað var efni og hugmyndum til að vinna úr á verkstæði sem útbúið var í húsnæði skólans. Vakin var athygli á því samhengi sem við lifum í, skoðaðar grindur / byggingar í líkömum plantna, skordýra og bygginga nær og fjær. Nýttar voru smásjár og stækkunargler til að rannsaka hið smágerða. Einnig var athyglinni beint að því að veita skuggum, skuggaspili og birtu athygli, um leið og rætt var um litbrigði náttúrunnar og litablöndun.
Áhersla var lögð á að vekja athygli á því burðarverki sem liggur til grundvallar í líkömum manna, plantna og dýra. Sérstaklega voru skoðaðar byggingar úr staðbundnum efnum og skoðaðar heimildir um slíkt frá ýmsum heimshornum (nýttar bækur úr bókasafni Myndlistaskólans); íslenskar torfbyggingar, leirbyggingar Afríku og Suður Ameríku og Asíu, en einnig byggingar dýra; hreiður, termítabú, hornsílabústaðir o.s.frv. Börnin sköpuðu sínar eigin byggingar og íbúa þeirra, út frá rannsóknum og hugarflugi. Þau efni sem notuð voru í byggingarnar voru frauðplastplötur, tágar, þurrt gras og Dalaleir.
Athuganir úr smásjám voru síðan nýttar til að skapa skuggafígúrur og skrímsli; þannig urðu athuganir á skordýrum og flugum að innblásnum skrímslum og drekum í skuggaleikhúsi. Unnið var í tvívídd og þrívídd með form, rými, liti, ljós og skugga, en leikurinn settur í fyrirrúm.
Síðasta daginn var sett upp sýning fyrir gesti og gangandi
sem opnaði kl. 12: 00 og var fjölmenni í Tjarnarlundi þann dag að skoða afrakstur verkefnisins.