Lína – Rými – Tími / Line – Space – Time

Lína – Rými – Tími / Line – Space – Time

Lína – Rými – Tími / Line – Space – Time

Lína – Rými – Tími, Verk Þóru Sigurðardóttur

Á sýningu í Nýp Sýningarrými og víðar í húsakynnum staðarins, eru til sýnis nýleg og eldri verk Þóru Sigurðardóttir myndlistarmanns. Þar á meðal eru teikningar á striga, ætingar/prent og stillur úr vídeó. Verkin eru dæmi um áralanga könnun Þóru á efni, rými og margvíslegum víddum og plönum. Sýningin er samhliða sýningu Þóru í Listasafni Íslands “Járn hör, kol og kalk: Ný verk Þóru Sigurðardóttur” sem stendur yfir til hausts, 15.september nk.

Sýningarstjórn í samtali við Becky Forsythe og Sigrúnu Sumarliðadóttur. Sýningartexti er eftir Becky Forsythe.

Vefsíða þóru: thorasig.is

INNRI HVERSDAGSLEIKI

Sýningin að Nýp 2024  Lína – Rými – Tími  varðar hversdagslegan veruleika; þögull taktur sem líkist hjartslætti, stjórnar flóknum línum, hreyfingum og mynstrum sem þræða í gegnum ys og þys daglegs lífs. Þessi myndlíking birtist skýrt í sýningunni á Nýp þar sem fjölbreytt listaverk tengjast margvíslegum efnivið. Þessi verk, stillur úr videó, teikningar- eða málverk á striga, og prentaðar ætingar á bómullarpappir, endurspegla samtal listamannsins, Þóru Sigurðardóttur, við efni, rými og plön, ofið saman í samfellda frásögn listar og lífs.

Hugmyndir um heimili, gestgjafa og umhverfi okkar móta samhengi verka Þóru á sýningunni, og draga upp samsvörun milli eiginleika þeirra rýma sem við tengjumst og flókinna mynstra heimilislífsins. Á sýningunni birtist spenna á milli formanna í sumum verkum Þóru andspænis mýkt litanna í prentverkunum og lífrænum formum í vídeóstillunum. Þessar andstæður draga fram kraftmikið samspil forms og efnis, auðgar frásögn verkanna og býður áhorfendum að kanna flókið jafnvægi á milli skipulags og óreiðu, bæði í list og lífi.

Sýningin Lína – Rými – Tími hér að Nýp á Skarðsströnd hefur sérstaka þýðingu fyrir listamanninn. Staðurinn hefur um árabil verið uppspretta innblásturs fyrir listrænt ferli Þóru og hýsir nú ný og nokkur eldri verk.

Í stuttu viðtali Becky Forsythe við listamanninn eru sumar þessara hugmynda útfærðar nánar með hennar eigin orðum:

Becky Forsythe: Byggingar á Nýp voru að mestu í rúst þegar þið hjónin komuð fyrst auga á þær en hafa síðan verið endurbyggðar og endurhugsaðar samhliða listferli þínum. Hvernig hefur þessi bygging, umhverfið, og ferlið við endurreisn staðarins haft áhrif á val þitt á efnum, aðferðum og listsköpun í gegnum tíðina?

Þóra Sigurðardóttir: Við getum horft á húsið sem eins konar ramma um líf, einhvers konar húð eða hlíf um viðkvæmt efni. Húsið fylgir ákveðnu skipulagi, planteikningu sem gerð hefur verið, skissað upp í samtali við þau sem munu búa í eða nota bygginguna. Húsið að Nýp var byggt um 1936 og kom í stað torfbæjar. Það var reist af heimafólki úr staðbundnum efnum, auk sements frá Danmörku, greinilega undir áhrifum af erlendum hugmyndum um heilsusamleg híbýli. Það er áhugavert hvernig húsið var hugsað og skipulagt með hliðsjón af umhverfinu, veðri og vindáttum, fólki og dýrum, þörfum þeirra og athafnasvæði. Jafnframt hvernig efnisvalið hefur stöðug áhrif fólk og dýr. Þar er snerting, samspil og samtal. Hér skiptir aðdráttarafl jarðar jafnframt meginmáli; við höfum ævinlega einhvern snertipunkt við láréttan flöt “horisont” og erum stöðugt að leitast við að halda jafnvægi. Þetta er jafnframt sá grunnþáttur sem er áhugaverður við teikningu. Massinn, rúmtakið, lóðrétt og lárétt, jafnvægi.

BF: Kerfi, taktar, snertipunktar og mynstur í daglegu lífi, skipulögð og lífræn, eru leið fyrir þig til að flétta saman efni og hugmyndum í verkum þínum og einnig til að íhuga stærri hugtök. Gætir þú útskýrt frekar þær tengingar sem eru þér innblástur fyrir verkin þín á sýningunni?

ÞS: Í vinnu með rými og efni hef ég lagt mig fram um að þróa með mér og efla tilfinningu fyrir efni og rými umhverfis. En líka fyrir mínu eigin efni, líkama mínum, innvortis og útvortis. Með því að vinna með þessa skynjun, sem liggur í húð okkar, heyrn og sjón er eins og veröldin, innri og ytri, opnist og allt tali sínu máli. Efnið tjáir sig, hvort sem við tökum eftir því eða ekki.
Þessi vegferð er langvinn en stöðug, allt breytist og hreyfist. Í daglegum takti okkar, sem við komum fyrir í kerfum af ýmsu tagi, er eiginlega allt mjög músíkalskt; nótnaskrift í vestrænni tónlist er ákveðið kerfi sem setur ramma um tíma og rúm, það gerir almanakið líka. Síðan eru ævinlega alls konar frávik! Kerfi klassískrar teikningar gefur okkur ákveðna fjarvídd til að vinna með í athugunum okkar og rannsóknum á veröldinni. Hið stafræna kerfi er í grunninn líka byggt á neti lóðréttra og láréttra lína. Viðleitni okkar til að henda reiður á upplausn. Kerfin geta sett okkur íþyngjandi skorður en þau geta líka gefið okkur frelsi. Matargerð og sýsl með það sem sprettur úr jarðveginum en einnig sýsl með líkama þeirra félaga okkar sem dýrin eru, þar sem við þiggjum orku þeirra og gerum að okkar; eins og hefur tíðkast í hjarðbúskap á Íslandi og annars staðar: Að taka við innmat, himnum, fitu og blóði og breyta því í pylsur, sláturkeppi, lifrarpylsur o.s.frv. Allt notað, engu hent. Þetta kerfi, fengitími, rekstur á fjall, smölun, slátrun og úrvinnsla, einnig sáning og uppskera, fylgir gangi himintungla, árstíðunum. Í þessu öllu er ákveðið lífrænt flæði sem er áhugavert að gefa gaum.